Ferð í Tvíbotna og Litla-Björn 17.nóv

Arnar, Guðni og Halldór lögðu af stað í Goðahraun með tilgang. Að færa grjót í suðurenda Tvíbotna til að komast áfram inn í það rými sem sást á milli steinanna. Bílnum var lagt á gamla Gjábakkaveginum og 500m frá veginum er gríðarstórt gat 4x6m í þvermál og uþb 4m djúpt. Vírstígi var hengdur á kúbein sem hafði verið rekið á bólakaf í hraunið og einn af öðrum stigum við niður í djúpið.
Fyrst skoðuðum við hellinn upp í hraunið, þar sem hann er 250m langur og allur frekar stór um sig. Lofthæðin fer á stundum upp í allt að 10 metra. Eftir að hafa labbað norðurendann fram og tilbaka voru hellafararnir bjartsýnir á að eitthvað frekara hlyti að vera í suðurendanum en núþegar var þekkt. Suðurendinn er uþb 150m langur og endar í miklu hruni. David og fleiri höfðu verið við mokstur á þessum stað og skilið eftir lítið gat þar sem sáust göng í gegnum og hægri beygja. Lofthæðin uþb 3m og allt eins líklegt að þarna séu löng heilleg göng. Gatið var ekki meira en 15-20cm á hæð og 40cm á breidd og björg í allar áttir. Guðni er þekktur fyrir gríðarlega bjartsýni í þessum efnum og var ekki búinn að vera lengi að þegar neðri steinarnir voru komnir úr stað og gatið orðið eitthvað stærra. Eftir 3-4klst rugg á steinum með höndum, járnkarli og kúbeini varð gatið loksins nógu stórt svo Arnar gat smeigt sér inn með erfiðsmunum. Áður en reynt var að stækka gatið frá innanverðu var ákveðið að hann mundi labba lengra til að sjá hvort þetta væri þess virði en fljótt á litið var þetta ALLS ekki þess virði. Göngin eftir beygjuna enduðu strax. Herbergið var ekki meira en 8-9m langt og eina leiðin áfram var niður hraunbrekku, þar tók við ca 15m langt herbergi, mikið hrunið og lágt til lofts og endaði það í öðru hruni þar sem ekki varð lengra komist. Tvíbotni endaði því sannarlega þarna. Þá lá leiðin upp á yfirborðið.

Litli-Björn var skoðaður áður en haldið var heim á leið. Fremst í hellinum er mikið um zebra munstur og er hann heillegur á löngum köflum. Endar í miklu hruni þar sem hægt er að komast yfir í Vörðuhelli, við ákváðum að gera það ekki núna, enda orðið kalt og dimmt úti og útivistartíminn liðinn.

Eftir afar, verð ég að segja, undarlegar tónlistarumræður í bílferðinni heim voru lemstraðir hellafararnir komnir aftur í bæinn um kl. 20:00, tíu klukkustundum eftir brottför.

Uppfært 13.12.12: David lætur ekki segjast og fór aftur í Tvíbotna helgina 8-9 des og náði að grafa sig lengra inn í suðurenda Tvíbotna með félaga sínum Þóri og lengja þar hellinn um 40m. Sjá frekari lýsingar í commenti við þennan póst.

– Kennir okkur eina ferðina enn að gefast aldrei upp og koma ferskur að hverri hindrun.

Speleon!