Ferð í Hallmundarhraun 26. október – Ráðgátan um Sanda leyst

Nokkrir félagar úr Hellarannsóknafélagi Íslands lögðu leið sína í Hallmundarhraun að morgni laugardags. Markmið ferðarinnar var annarsvegar að leysa rúmlega 20 ára ráðgátu um hellinn Sanda sem, eins og nafnið gefur til kynna, lokast af sandi skammt innan við hellismunann. Hins vegar átti að kíkja á dökkan blett sem sést svo greinilega á loftmyndum að fyrsta hugsun okkar var að um einhverskonar mynd-villu væri að ræða. Blettur þessi var aðeins um 500m sunnan við Sanda og virðist ekki hafa verið kannaður áður – við

Loftmynd af gatinu

Loftmynd af gatinu

sannreyndum það í ferðinni.

Ferðin hafði verið ákveðin með nokkrum fyrirvara og eftir að búið var að raða skóflum, tjöldum, svefnpokum, nesti og hellagallanum í bílinn héldu David, Arnar, Axel og Margrét af stað. Hugmyndin var að gista í tjaldi og voru menn og kona tilbúin í heilan helling af mokstri. Ferðin upp í Hallmundarhraun gekk ágætlega. Eftir að komið er út af veginum tekur við slóði sem var hulin snjó og var því hraunið þrætt að mestu með hjálp gamals GPS-tracks sem David átti, auk þess sem fjórhjól höfðu farið þarna um fyrr um morguninn og hjálpaði það mikið til.

Gatið og breiður Hallmundarhrauns

Gatið og breiður Hallmundarhrauns

Þegar komið var á svæðið var keyrt rakleiðis að hnitum fyrrnefnds blettar og mannskapurinn dreif sig út. Um glæsilegt gat var að ræða. 5-6m í þvermál og 4-5m djúpt. Ofan í gatinu var opið bæði til norðurs og suðurs. Mikill sandur var í botni hellisins. Fyrst könnuðum við hellinn til norðurs ( í áttina að hinum þekkta hellismunna Sanda). Þar var gott rými um 5-8 metra en eftir það voru allir komnir á magann að troða sér áfram í frosnum sandi sem breyttist fljótlega í leðju og aldrei var hellirinn það stór að hægt væri að ganga um. Undirritaður lét sig því hverfa og klifraði upp á yfirborðið og hella-gallaði sig upp. Aðrir í hópnum héldu þó áfram för. Hellirinn væri ábyggilega nokkuð stór um sig, ef ekki væri fyrir sandinn. Breidd milli veggja var víðast hvar 6-9/10 metrar en fyrstu 300+ metrana var aldrei nógu hátt til lofts svo hægt væri að ganga uppréttur. Mestan part var maður beinlínis á maganum skríðandi í sandinum og drullunni. Fötin voru drullug eftir því. Eftir að ég hafði náð þeim fórum við öll samferða út úr hellinum og sammælst var um að ég færi aftur inn í hellinn með snjóflóðaýlu á bakinu og David mundi reyna fylgja mér á yfirborðinu. Hellirinn liggur mjög grunnt og því ætti það að vera lítið mál.

Eftir nestispásu fór ég því mína aðra ferð inni í hellinn, skríðandi á maganum og löngu kominn með ógeð á drullunni og sandinum. Í sandinum var hægt að sjá litla vatnsfarvegi, þar sem vatnið hafði runnið um eitthvað áfram eftir að sandurinn var borinn þarna inn. Eftir að ég hafði farið 300+ metrana sem við höfðum farið áður þá stækkaði hellirinn töluvert

David og Margrét standa yfir loftglugganum

David og Margrét standa yfir loftglugganum

og eftir um 400m sá ég glytta í snjóskafl á botninum. Á þessum kafla var amk 4 metra lofthæð og 9 metrar á milli veggja. Ég kallaði upp um loftgluggann og heilsaði David og Axel áður en ég hélt áfram. um 40 metrum innar lækkaði hellirinn aftur en stækkaði þó fljótt aftur. Eftir uþb 480 metra var sandurinn farinn að ná alla leið upp í loft. Ég gróf mig áfram í sandinum uþb 2 metra til að reyna sjá hvort að hellirinn stækkaði aftur. Svo virtist ekki vera og því snéri ég þar við en þráði ekkert heitar en að geta labbað út um hið áður þekkta op af Sanda í stað þess að þurfa skríða drulluna tilbaka. Á endanum kom í ljós að aðeins 80 metrar voru á milli þess staðar sem ég stoppaði og hinu áðurþekkta opi í Sanda.

David kannaði síðan suðurendann og reyndist þar um þröngan 60m helli að ræða sem endar í miklu hruni.

Þar með var ráðgátan um hellinn Sanda leyst. Hellirinn var lengdur um eina 550-560 metra í þessarri ferð og ljóst að óþarfi er að ráðast í mokstur eins og til stóð. Hellirinn var að mestu leyti hruninn og ekki var lagt í að taka myndavélar með inn vegna hættu á skemmdum af völdum sands og drullu.
Þið sem viljið gera ykkur ferð þangað, takið með ykkur föt til skiptanna og gangi ykkur vel 🙂

Við héldum því út úr Hallmundarhrauni um kl. 17:30 og hefðum ekki mátt vera mikið seinna á ferðinni, því mikið hafði skafið að norðan yfir daginn. Ég lét mig hverfa í Borgarnesi meðan restin af hópnum hugði á fjallamennsku á Snæfellsnesinu á sunnudeginum.

kv.
Arnar

Ferð í Brennisteinsfjöll 25. ágúst

Stefnan er tekin á Brennisteinsfjöllin á sunnudag. Markmiðið að skoða nokkra lítt kannaða hella á svæðinu í grennd við Eldborgina ásamt því að síga ofan í djúpu holuna sem þar fannst fyrr í sumar. En þangað niður hefur enginn komið. Það kemur til með að vera nokkuð mikil fyrirhöfn í kringum það og er mjög mikilvægt að þeir sem taka þátt í því séu með þónokkurn bakgrunn í línuklifri. Gert er ráð fyrir að ferðin taki alls 12-14 klukkustundir, þar af er 25-30 km. ganga á hrauni.

Við hittumst kl. 8.00 á N1 í Hafnafirði.