Hellafundur í kvöld – mánudaginn 27. ágúst

Sælir félagar…

Næsti fundur Hellarannsóknafélagsins verður haldinn í kvöld, mánudaginn 27. ágúst í Miðbergi við Gerðuberg, Breiðholti. Hann mun hefjast kl. 20.00 að venju.

Nýir hellaáhugamenn velkomnir.

Uppfært: Á fundi kvöldsins var skoðað í þaula þau svæði sem týnda gatið í Brennisteinsfjöllum gæti leynst. Áætluð ferð þangað á næstunni.
Verkefni haustsins útlistuð og fela þau meðal annars í sér vinnuferð í Tvíbotna og leit í Þjófahrauni.

Ferð um Purkhólahraun 27 júlí

Eftir 2ja vikna dvöl í steikjandi Spánarsól var tímabært að skella sér aðeins í undirheima og ná sólargrettunni endanlega af andlitinu. Ég kom til móts við þá félaga Guðna og Halldór við sjoppuna  Vegamót á Snæfellsnesi eftir dvöl í Stykkishólmi. Ekki veit ég hvað þeir ætluðu að vera lengi á nesinu en bílinn var svo þaulpakkaður að ég komst ekki fyrir afturí og keyrðum við því á tveimur bílum að bílastæðinu við Vatnshelli. Fjöldi bíla var þar og greinilega mikill áhugi fyrir því að skoða hann undir leiðsögn þjóðgarðsvarða.
Bílunum var lagt og stefnan tekin út í hraunið. Guðni hafði merkt einhverja GPS

Mikið af þekktum hellum er í Purkhólahrauni í nágrenni Vatnshellis

Mikið af þekktum hellum er í Purkhólahrauni í nágrenni Vatnshellis

punkta í hrauninu og gengum við að þeim hverjum af fætur öðrum. Hellirinn Sigurð er djúp og flott hola, á að giska ca 8 metra djúp. Ofan í holuna liggur blátt reipi og er óvíst hvað það hefur verið þarna lengi. Við allavega treystum því ekki og létum nægja að horfa ofan í djúpið því jú, markmið ferðarinnar var að finna nýja holu og helli. Hrossabeinshellir var næstur á leið okkar og aftur létum við ekki freistast að fara ofan í heldur héldum göngunni áfram. Við gengum að hraunkanti Svartahrauns sem er apalhraun sem liggur yfir Purkhólum. Eftir að einhverjir punktarnir höfðu reynst vera skuggi af steinum, sorry Guðni J, þá settumst við niður til að kasta mæðinni og Guðni heldur af stað að reyna ná símasambandi við Bibba sem þekkti sögu af berjatínslumanni sem týndist á þessum slóðum kringum 1970 og hugsanlega djúpa holu sem hann hugsanlega gæti hafa dottið ofan í. Allt mjög hugsanlegt, en spennandi ef rétt reyndist. Ekki náði hann í Bibba, en í leitinni að símasambandi rambaði hann á holu og kallaði okkur Halldór til, en við höfðum verið að ræða möguleikann á að efnast á þeim tugum tonna af berjum sem fara undir snjó á hverjum vetri. Holan var klifurhæf og héldum við því ofan í hana hver á fætur öðrum. Ekki var um mikið rými að ræða þarna niðri og mjúkur jarðvegur í botninum. Ég ákvað nú samt að skríða drulluna út á enda og þar verður mjög lágt til lofts og mjúkur jarðvegur sem blokkar að lengra verði haldið. Inn í enda tekur samt mikill dragsúgur á móti manni og hægt er að horfa eitthvað áfram. Spurning hvort þarna sé hægt að moka jarðveginum frá og halda eitthvað áfram, en svo lágt er til lofts að það er mjög erfitt að vinna eitthvað þarna. Klifið var upp og hraunkantinum fylgt aftur á bílastæðið án þess að nokkuð meira væri uppgötvað.

Þar sem okkur langaði öllum að komast aðeins undir hraunið þá er auðvitað úr nægu að taka í nágrenni Vatnshellis og haldið var í Langaþröng. Hann ber nafn með rentu og eftir uþb 250m þá snérum við tilbaka, en hellirinn er um 1km langur og opinn í báða enda. Næst var farið í Snjóhelli. Niðurfallið að honum er gríðarlega stórt og fékk mig til að hugsa hvort það séu ekki einhver svona stór niðurföll sem hafa ekki verið uppgötvuð ennþá, hlýtur að vera!! Snjóhellir er næstum snjólaus núna ef frá er talin snjóbrekka sem liggur ofan í hann. Í annan endann endar hann „óvænt“ í miklu hruni og hugsanlega er hægt að færa eitthvað þar til en áhættan gæti verið of mikil þar sem stórir steinar bíða þess að komast niður á botn hellisins. Síðast var farið í Holuborg, en það er lítið og sakleysislegt gat að honum en þegar niður er komið tekur mjög sérkennilegur  og stórskemmtilegur hellir við og maður skilur af hverju hann hefur fengið þetta nafn. Búið er að raða steinum upp þannig að klifurhæft er ofan í hann.  Á fyrstu „hæðinni“ er farið um gang og niður á þá næstu yfir eiginlega brú sem virðist bara hafa orðið til svo hægt væri að komast án vandræða um hellinn. Á næstu hæð fyrir neðan er farið niður halla í báðar áttir og í sitthvorum endanum eru litlar holur sem einhver smávaxinn gæti farið niður um, og kannski hefur það verið gert.
Upphaflega var stefnan tekin á Vegamannahelli í heimleiðinni en rúmlega 7 var kominn tími á mig og sögðum við þetta því gott í bili og allir tóku stefnuna heim. Vegamannahellir bíður betri tíma.

Arnar Logi Elfarsson

Brennisteinsfjöll á laugardaginn

Laugardaginn 9. júní höldum við í Brennisteinsfjöll. Aðaltilgangur ferðarinnar er að leita skipulega að mögnuðu hellisopi sem fannst fyrir nokkrum árum af gönguhópi en týndist síðan aftur og hefur ekki fundist síðan. Gatið er mjög lítið og sést ekki nema staðið sé alveg við hliðina á því. Það er staðsett á sléttri, svartri hraunhellu og er um 15 metrar á dýpt. Vonumst við til að geta safnað saman þónokkrum í ferðina svo auðveldara verði að finna gatið. Skoðaðir verða fleiri hellar á svæðinu ef færi gefst, bæði þekktir jafn sem lítt kannaðir. Áhugasamir geta haft samband við Hellarannsóknafélagið (speleo@speleo.is).

Uppfært: Guðni og Arnar fóru með nokkrum félögum úr FBSR á svæðið og var leitinni helst beint að hrauntröðum sem liggja þarna eins og æðar um allt. Ekkert fannst í þetta skiptið eftir uþb 7klst skipulagða leit. Þökkum Flugbjörgunarsveitinni fyrir daginn og David sérstaklega fyrir skipulag og forystu.

Mokstursferð í Búra

Hellarannsóknafélagið ætlar í mokstursferð í Búra sunnudaginn 16. desember.
Ferðir eins og þessar eru gríðarlega erfiðar þar sem það á að moka ofan í svelgnum í Búra við mjög erfiðar aðstæður. Áætlaður ferðatími er amk 10-12 klst.

Aðalfundur Hellarannsóknafélagsins 26. mars 2012

Aðalfundur Hellarannsóknafélagsins verður haldinn mánudaginn 26. mars, kl. 20. Miðbergi við Gerðuberg eins og áður. Á dagskrá verða hefðbundin aðalfundarstörf auk annarra mála. Það er liðinn svolítill tími frá síðasta fundi þannig að vonandi verður hægt að safna saman góðum mannskap svo hægt verði að ná upp einhverjum umræðum um komandi hellaverkefni á næstu vikum og með sumrinu. Veltur þetta allt á því hversu mikinn kraft og áhuga menn hafa.

Leiðangur í Þríhnúkagíg

9. september síðastliðinn fóru þrír félagar úr Hellarannsóknafélaginu í Þríhnúkagíg. Þetta voru þeir Björn Símonarson, Guðni Gunnarsson og Martin Gasser. Ferðin tók alls 17 klukkustundir.

Hér eru nokkrar myndir úr ferðinni: