Ráðlagðar hellaferðir

Hellarannsóknafélag Íslands gefur hér upp ráðlagða dagsskammta af hellaferðum. Það er trú okkar og sannfæring að hellaskoðun sé auðgandi og gefandi dægradvöl sem allir rólfærir einstaklingar geta stundað. Ferðin sem farin er fær þannig tilgang og felur í sér létta gönguferð, átök í iðrum jarðar og yfir þátttakendur færist ævintýralöngun og spenna. Til að skoða hella þarf hvorki að fara langt né heldur krefst það mikils útbúnaðar. Fyrst er að telja þann lágmarksbúnað sem þó er nauðsynlegur, bæði til að auðvelda hellaskoðunina og til að tryggja öryggi hellaskoðarana og ekki síst hellanna. En ekki er eins mikil hætta á skemmdum ef góð lýsing er í hellinum.

Ljós: Eðli málsins vegna er nauðsynlegt að vera með gott ljós við hellaskoðun. Við leggjum til að hver hellaskoðari taki með sér tvö ljós. Nægir að hafa gott vasaljós en best er að vera með svokallað ennisljós því þá hafa menn hendurnar lausar til að styðja sig á göngunni. Þá er upplagt að vera með lítið vasaljós í vasanum til notkunar í neyð. Það vita þeir sem reynt hafa að það er nær útilokað að komast leiðar sinnar í myrkum helli ljóslaus því myrkrið er algert og ekki sér handa skil.

Hjálmur: Best er að vera með hjálm. Reiðhjólahjálmur dugar og í versta falli er að vera með húfu heldur en ekki. Skarpar nibbur skera auðveldlega og skráma og því er höfuðfat nauðsynlegt.

Vettlingar: Til að forðast skrámur og meiðsl á höndum er gott að hafa vettlinga eða vinnuhanska.

Skór: Þegar gengið er um grýtt gólf hellanna er mikilvægt að vera í góðum gönguskóm. Léttir strigaskór, sandalar eða annað í þeim dúr veita ekki þann stuðning sem nauðsynlegur er og því geta menn átt það á hættu að misstíga sig og meiða.

Siðfræði og mannasiðir

Mikilvægt er að láta vita af sér eða skilja eftir einhver ummerki á yfirborði, eins og yfirhafnir eða bakpoka. Þannig fá þeir sem koma að hellinum hugmynd um að einhverjir séu inni í hellinum. Þá verður seint tekið nógu oft fram að góð umgengni er afar mikilvæg. Sýnum náttúru landsins þá virðingu að skilja ekki eftir rusl í hellunum og ekki skemma þær myndanir sem verða á vegi manns. Komandi kynslóðir eiga eftir að njóta þess sama og við höfum tekið í arf eftir forfeður vora sem skoðuðu hellana. Þá er nauðsynlegt að brýna fyrir hellaskoðurum að nota ekki kyndla eða kerti við hellaskoðun því bæði er það ótryggt ljós og af hlýst mikill sóðaskapur. Góða ferð.

Hér að neðan er listi yfir nokkra hraunhella sem við mælum með að áhugasamir skoði. Þeir eiga það allir sameiginlegt að vera í grennd við höfuðborgarsvæðið. Sumir af þeim eru góðir fyrir byrjendur en aðrir eru ef til vill fyrir lengra komna og verður það tekið skýrt fram. Hægt er að verða sér úti um frekari upplýsingar hjá Hellarannsóknafélagi Íslands.

Maríuhellar í Heiðmörk

Byrjendum í hellaskoðun má benda á Maríuhella í Heiðmörk en þá er hægt að skoða án þess að fara langt og án mikils útbúnaðar. Farið er að Vífilsstöðum og beygt til vinstri inn í Heiðmörk. Rétt eftir að komið er í gegnum Heiðmerkurhliðið þá blasa við á vinsti hönd tvö stór niðurföll og uppi á brúninni er borð með bekkjum. Hellarnir eru merktir og auðvelt að finna þá. Unnt er að fara niður í efra niðurfallið og ganga undir þaki yfir í það neðra. Skammt frá neðra niðurfallinu er gjóta sem farið er niður um og er þá komið í aðalhvelfingu hellisins. Þar inni er nauðsynlegt að nota ljós. Hellirinn hefur mikið verið heimsóttur á liðnum árum og áratugum og ber hann þess merki. Mikið hefur verið skilið eftir að rusli inni í hellinum og svona getur farið fyrir hellum er ekki er gætt að því að taka með sér umbúðir og annað sem fellur til og á heima í rustatunnu.

Skátahellir í Heiðmörk

Skammt frá Maríuhellum er lítt þekktur en fremur fallegur hellir skammt frá vegi. Farið er nokkurn spöl inn með hlíðinni og á hægri hönd er hellirinn. Þennan helli er gaman að skoða síðla vetrar þar sem í honum eru oft miklar ísmyndanir. Nafn á þessum helli hefur ekki fengist staðfest en félagar í Hellarannsóknafélaginu hafa kallað hann Skátahelli.

Arnarker í Ölfusi

Stór og mikill hellir skammt frá Þorlákshöfn sem hentar þeim sem eru vel á sig komnir því hellirinn er mikið hruninn og þarf að ganga inn eftir honum nánast öllum á hvössu stórgrýti. Hellisgöngin eru hvergi þröng utan smá þrengsla rétt fremst í efri hlutanum en víða er mjög hátt til lofts og vítt til veggja. Í hellinum er oft mikill ís síðla vetrar og fram á vor og verður því að fara með enn meiri gát. Nauðsynlegt er að taka með sér gott ljós til að njóta ískertanna sem eru í hellinum síðvetrar og skapa mikla ævintýrastemningu. Skilti er við veginn (nr. 42, Krýsuvíkurvegur) og er leiðin að hellinum stikuð og því auðvelt að finna hann. Farið er um Þrengsli í átt að Þorlákshöfn og beygt til hægri í átt að Krýsuvík. Ekið er eftir veginum að áðurnefndu skilti en þar er bílastæði.  Hellirinn er um 500 metra langur og er syðri álman um 150 metrar og sú nyrðri um 350 metrar. Í Arnarkeri er gestabók sem allir eru hvattir til að skrifa í.

Uppfært:

Umferð í hellinn fór langt uppúr öllu valdi og olli gríðarlegum skaða á vegi og umhverfi hellisins á árunum 2009-2018. Gróður í kringum hellisop var orðið að einu drullusvaði sem síðan barst inn eftir hellinum. Svæðið var orðið hættulegt og brást Hellarannsóknafélagið, í samstarfi við landeigendur við með því að fjarlægja stigann sem þar hafði verið sl. 20 ár. Hellirinn er þó öllum opinn og hægt er að komast niður með línu eða færanlegum stiga.

Raufarhólshellir

Einn þekktasti hellir á Suðvesturlandi er án efa Raufarhólshellir. Hann er á leiðinni til Þorlákshafnar og er farið um Suðurlandsveg og beygt til Þorlákshafnar um Þrengsli. Þegar komið er nærri því fram á brúnina og sést til Þorlákshafnar þá er slóð sem liggur niður af aðalveginum til vinstri og endar í smá plani eða bílastæði. Þar skammt frá er munni hellisins. Varasamt er að fara í hellinn á veturna og fram eftir vori vegna ísmyndana sem í honum eru en þá er hellirinn fallegastur á að líta. Þarf nauðsynlega að hafa góð ljós til að skoða Raufarhólshelli því hann er stór og mikill en heildarlengdin er 1360 metrar. Þá er yfir stórgrýti að fara mest alla leiðina og mikilvægt að menn séu í góðu formi og vel útbúnir. Eins og að framan er greint frá þá er ráðlegt að fara ekki í Raufarhólshelli án þess að vera með nóg af aukaljósum og rafhlöðum ef eitthvað skyldi út af bera. Á það í raun við um allar hellaferðir, eins og áður hefur verið sagt.

Uppfært:

Ferðaiðnaðurinn hefur nú tekið yfir hellinn og er hann um leið lokaður.

Bláfjallahellar

Skammt norður frá skíðasvæðinu í Bláfjöllum er mikið af hellum en þeir henta misvel til skoðunar. Fyrstan mætti telja Djúpahelli en farið er í hann um niðurfall sem er auðvelt inngöngu enda stórt og mikið. Þegar inn er komið sjást tvö göt á þekjunni og má vara sig á þeim þegar gengið er ofan á hellinum. Einhverjar leifar af girðingu eru í kringum opin en frá því innra eru um 15 m til botns í hellinum. Hellirinn er skemmtilega margbreytilegur og í honum er margt að skoða. Hann er einn þeirra hella sem gengið hefur verið illa um og geta gestir séð hvernig farið getur fyrir náttúrufyrirbærum ef lítil virðing er fyrir þeim borin.  Langihellir er einn Bláfjallahella en hægt er að komast inn í hann á nokkrum stöðum víðsvegar um hraunið. Hellirinn er um 900 metra langur ef allt er talið og skemmtilega lagaður. Víðast má ganga í honum uppréttur og margbreytilegar myndanir sjást þar víðs vegar. Góð ljós þarf til að skoða hellinn.  Tanngarðhellir er skemmtilegur hellir en stuttur. Sama má segja um fleiri Bláfjallahella.

Hellar í Goðahrauni (milli Þingavalla og Laugarvatns)

Hraunið sem um ræðir heitir mörgum nöfnum en Gjábakkahraun er heiti á spilduni austan við Gjábakkabæinn sem nú er brunninn. Allt hraunið austan við Þingvallavatn er runnið frá gígaröð milli Kálfstinda og Hrafnabjarga sem nefnast Eldborgir og hraunið hefur stundum verið kallað Eldborgahraun af miklu andríki. Hellamenn eru yfirleitt vanir að nefna þetta hraun Goðahraun enda var það á þessu hrauni sem fyrsti íslenski jarðfræðingurinn hóf upp raust sína og sagði, “hverju reiddust goðin er þetta hraun brann er við nú stöndum á?”. Þingstaðurinn og nánasta umhverfi er og í þessu hrauni. Taka þarf fram að stiga þarf til að komast í nokkra þeirra, þar á meðal Tvíbotna, en vart dugar minni en 8 m stigi til að komast niður í hann. Aðrir hellar eru auðveldir og viðráðanlegri. Sá þekktasti er Gjábakkahellir sem er stutt frá gamla Gjábakkaveginum. Fjölmargir fara í hann á ári hverju en bílastæði og vörðu hefur verið komið fyrir stutt frá opinu. Hellirinn er virkilega skemmtilegur og liggur á kafla undir veginn. Þar er hægt að komast upp úr hellinum aftur og því þarf ekki að ganga hann til baka. Hellirinn er stór um sig og þar er að finna skemmtilegar spenamyndanir. Ísmyndanir prýða einnig Gjábakkahelli yfir vetrartímann og geta þær orðið nokkuð glæsilegar.

Reykjanesskagi

Fjölmargir hellar eru á Reykjanesskaganum og er þar átt við allt svæðið frá Lönguhlíð norðan Bláfjalla og suður á Reykjanestá. Ef byrjað er yst og vestast á nesinu þá er Skálarbarmshellir athyglisverður en stuttur hellir. Til að komast niður í hann þarf stiga eða bandspotta, þótt gamalt snæri sé við munnann. Hellirinn er í barmi dyngjunnar Skálafells og þarf að ganga dágóðan spöl að hellinum.  Þegar farið er austar á skagann þá má nefna Hesthelli  í Arnarseturshrauni en hann eru við Grindavíkurveg og er stansað við göngubrú yfir girðinguna. Hellirinn er austan megin við veginn. Aðrir hellar á svæðinu eru fremur litlir og lítið fyrir augað. Einn helli má nefna sem þarf talsverða lagni og þekkingu til að skoða en það er gígaröðin í Eldvörpum. Vegur liggur frá virkjunni í Svartsengi og suður á Reykjanes og þarf að fá leyfi hjá starfsmönnum orkuversins til að fara þann veg. Þar sem vegurinn liggur í gegnum gígaröðina þar er stór gíghóll austan megin sem er talsvert holur innan. Fara má niður í gígrásina á nokkrum stöðum og skríða þar um.  Enn austar eru hellar sunnan við Helgafell ofan Hafnarfjarðar. Helstan má nefna Flóka eða Dauðadalahella, en þar er um einn og sama hellinn að ræða þótt gamla nafnið gefi annað í skyn.

Allar ábendingar um nýfundna eða áður óþekkta hella eru mjög vel þegnar hjá félaginu, vinsamlegast verið í sambandi á speleo@speleo.is