Hellareglur

Eitt af markmiðum Hellarannsóknafélags Íslands er að stuðla að verndun og varðveislu hraunhella hér á landi. Hraunmyndanir sem finnast í hraunhellum eins og t.d. dropsteinar eru friðaðar og er það því brot á lögum að brjóta þá og fjarlægja úr hellunum. Íslendingar hafa í gegnum tíðina orðið sér til skammar hvað varðar umgengni hraunhella hér á landi. Margir af okkar fallegustu hraunhellum hafa gjörsamlega verið hreinsaðir af öllu sem gæti talist til hraunmyndana. Þar má nefna hella eins og Víðgelmi, Surtshelli, Stefánshelli, Leiðarenda, Gullborgarhelli, Raufarhólshelli og svo lengi mætti telja. Ástandið virðist ekki vera að lagast og vitum við um fjölmörg dæmi þess að dropsteinar hafa verið vísvitandi skemmdir og fjarlægðir á allra síðustu misserum. Þó má ekki kenna þess konar skepnuskap um allar skemmdir því klaufaskapur og algjört athugunarleysi á sér oft stað þegar skemmdir verða. Á það ekki bara við um dropsteina heldur allar hraunmyndanir sem finnast. Það allra viðkvæmasta er líklega það sem hellamenn kalla dropstrá. En það eru örþunnar kvikumyndanir sem hanga úr lofti hraunhella. Þau þola alls ekki að vera snert og auðvelt er að reka höfuð eða hendur í þau. Af ofangreindum sökum höfum við nú ritað hér að neðan nokkur mikilvæg atriði sem hafa þarf í huga þegar hellir er heimsóttur. Þótt ótrúlegt megi virðast þá eru enn til ósnortnir hellar á Íslandi og ætlum við að gera allt sem í okkar valdi stendur til að sjá til þess að þeir haldist þannig. Textinn er tekinn að mestum hluta frá Áströlsku hellasamtökunum og aðlagaður Íslensku hellunum.

Hvetjum við því alla sem áhuga hafa á hellum og sjá fram að heimsækja þá nokkra í framtíðinni til að lesa þessar reglur vandlega. Þetta er byggt á áratuga reynslu hellamanna í Ástralíu.

 • Munið að hver einasta hellaferð hefur áhrif. Er nauðsynlegt að heimsækja viðkomandi helli? Er hugsanlega annar hellir sem hentar betur og er ef til vill ekki eins viðkvæmur? Hafið tilgang ferðarinnar í huga, stærð og reynslu hópsins og hvort einhverjar líkur séu á því að ferðin muni hugsanlega leiða af sér skemmdir á hellinum.
 • Taka skal allar upplýsingar varðandi viðkvæma hluti í hellinum skýrt fram fyrir hópnum áður en farið er af stað í leiðangurinn. Þetta er gert til að halda áhrifum ferðarinnar í algjöru lágmarki. Allir sem taka þátt í ferðinni skulu vera ábyrgir fyrir því að ekki verði gert neitt til að lækka gildi hellisins.
 • Farið ávallt rólega. Þið munuð sjá meira fyrir vikið og njóta ykkar betur á meðan ferðinni stendur. Auk þess eru þeim mun minni líkur á því að þið valdið skemmdum á hellinum eða ykkur sjálfum. Þetta á sérstaklega við ef þreyta eða spenningur er í fólki.
 • Ef það eru byrjendur í hópnum þá skal sjá til þess að þeir séu allan tíman undir eftirliti reyndra hellamanna sem hjálpar þeim að komast í gegnum erfiðar aðstæður sem þeir kunna að verða fyrir. Tryggið að hópurinn sé á þeim hraða sem hægasti hellamaðurinn er á.
 • Ef það verða slys þá skal alltaf reyna að bjarga sem mestu sjálfur áður en farið er út í það að kalla á björgunarlið. Ef þess gerist hinsvegar þörf þá er mikilvægt að það sé aðeins björgunarlið sem hefur reynslu og þekkingu í hellum.
 • Reynið að halda stærð hópa í lágmarki. 4 einstaklingar er góð tala fyrir flesta hella.
 • Ferðist um hellinn sem hópur og hjálpið hvert öðru í gegnum hann. Ekki skipta liði nema það þyki nauðsynlegt og að það auki ekki líkurnar á skemmdum.
 • Fylgjast skal vel með því hvar höfuð er staðsett á okkur sjálfum auk annarra í kring. Látið vita ef einhver gerir sig líklegan til að reka sig í og valda skemmdum.
 • Haldið stærð farangurs í algjöru lágmarki, sérstaklega í viðkvæmari hellum.
 • Passið upp á það að enginn úr hópnum þvælist um hellinn að óþörfu.
 • Haldið ykkur alltaf á merktum leiðum eða augljósum slóðum. Ef engin augljós leið er sjáanleg í gegnum viðkvæman hluta þá skal hún valin af mikilli nærgætni ef nauðsynlegt þykir að komast í gegn.
 • Virðið það sem fyrir var í hellinum, hvort sem það eru dýr, gróður, örverur eða eitthvað annað. Mikilvægt er að ganga ekki á því né snerta það. Dæmi um þetta eru eftirfarandi hlutir:
 • Hraunmyndanir: Dropsteinar, hraunstrá og spenar. Afgangsbráð kviku sem þolir litla sem enga snertingu.
 • Glerjungur: Mjög algengur í íslenskum hellum og er oft vandasamt að taka eftir fyrr en það er um seinan. Glerjungur lýsir sér best sem örþunn glerjuð kvika sem er getur umlukið bæði á veggi og á gólf. Hann molnar við minnstu snertingu.
 • Útfellingar á veggjum: Steindir og örverur. Tekur langan tíma að myndast og jafna sig.
 • Fornleifar: Óalgengt í íslenskum hellum og nauðsynlegt að fjarlægja ekki.
 • Bein: Geta verið fornleifar eða bein af dýrum sem hafa villst í hellinum.
 • Rætur: Hanga úr lofti hraunhella. Þeim ber að sýna virðingu sem og öðru í hellum.
 • Steinar: Oft eru lausir steinar í hellum sem grípa augað. Þeir skulu vera á sínum stað þrátt fyrir það.
 • Dropholur: Dropar sem koma úr lofti það lengi á sama punkt að þeir mynda holur.
 • Jarðvegur: Ekki algegnur í íslenskum hellum og  lágmarka skal spor ef ganga þarf á honum. Jarðvegur í hellum getur tekið áratugi eða árhundruð að jafna sig.
 • Hafið hugann við það hvar hendur og fætur eru staðsett þegar farið er um hellinn.
 • Gott er að þrífa ávallt búnað eins og hellagalla eða skó eftir hverja ferð svo jarðvegur, drulla og fleira fari ekki yfir í annan helli.
 • Í viðkvæmari hellum er ekki vitlaust að hafa með sér eitthvað til að merkja með ef komið er auga á skemmdir. Þá er hægt að afmarka það svæði og tilkynna þeim sem við kemur.
 • Ef staðið er frammi fyrir þeim aðstæðum að það verði að fara yfir viðkvæmt gólf, eins og t.d. þunn grjót- eða kvikulög þá skal huga að því að skipta um skó. Þá er mikilvægt að fara í hreina og létta skó sem ekki eru líklegir til að skilja eftir sig skemmdir. Ef það er ekki hægt þá skal viðkomandi huga að því að snúa við og koma aftur síðar með viðeigandi búnað. Þó er stundum hægt að sjá leið í gegnum viðkvæman hluta sem greinilega hefur verið farin áður.
 • Sjáið til þess að allt sem komið er með inn í hellinn skuli fara út aftur nema í þeim tilfellum sem það væri tengt rannsóknavinnu í hellinum. Þetta á jafn við um úrgang manna sem og vökva eða fast efni.
 • Þegar notast á við utanaðkomandi hluti eins og línur eða festingar þá skal tryggja að það valdi eins litlu raski og mögulegt er. Alltaf skal reynt að nota það sem fyrir er sem festingu en nota skal aðeins bolta ef ekkert annað kemur til greina, þá í samráði við landeigendur eða aðra sem við kemur.
 • Allir hellar hafa gildi. Það á ekki að líta á fjölfarna hella sem fórn þar sem ekki þarf að huga að reglum um velferð þeirra. Frekar að þeir séu einungis hellar sem þola meiri ágang en aðrir og eru mikilvægir til að upplýsa óreynda um hvernig umgangast eigi hella. Þeir bjóða upp á tækifæri til að læra um náttúru, þeirra afleiðinga sem ágangur hefur á hella og hvernig standa skuli frammi fyrir verndun og varðveislu.