Hellarannsóknafélag Íslands gefur hér upp ráðlagða dagsskammta af hellaferðum. Það er trú okkar og sannfæring að hellaskoðun sé auðgandi og gefandi dægradvöl sem allir rólfærir einstaklingar geta stundað. Ferðin sem farin er fær þannig tilgang og felur í sér létta gönguferð, átök í iðrum jarðar og yfir þátttakendur færist ævintýralöngun og spenna. Til að skoða hella þarf hvorki að fara langt né heldur krefst það mikils útbúnaðar. Fyrst er að telja þann lágmarksbúnað sem þó er nauðsynlegur, bæði til að auðvelda hellaskoðunina og til að tryggja öryggi hellaskoðarana og ekki síst hellanna. En ekki er eins mikil hætta á skemmdum ef góð lýsing er í hellinum.
Ljós: Eðli málsins vegna er nauðsynlegt að vera með gott ljós við hellaskoðun. Við leggjum til að hver hellaskoðari taki með sér tvö ljós. Nægir að hafa gott vasaljós en best er að vera með svokallað ennisljós því þá hafa menn hendurnar lausar til að styðja sig á göngunni. Þá er upplagt að vera með lítið vasaljós í vasanum til notkunar í neyð. Það vita þeir sem reynt hafa að það er nær útilokað að komast leiðar sinnar í myrkum helli ljóslaus því myrkrið er algert og ekki sér handa skil.
Hjálmur: Best er að vera með hjálm. Reiðhjólahjálmur dugar og í versta falli er að vera með húfu heldur en ekki. Skarpar nibbur skera auðveldlega og skráma og því er höfuðfat nauðsynlegt.
Vettlingar: Til að forðast skrámur og meiðsl á höndum er gott að hafa vettlinga eða vinnuhanska.
Skór: Þegar gengið er um grýtt gólf hellanna er mikilvægt að vera í góðum gönguskóm. Léttir strigaskór, sandalar eða annað í þeim dúr veita ekki þann stuðning sem nauðsynlegur er og því geta menn átt það á hættu að misstíga sig og meiða.
Siðfræði og mannasiðir
Mikilvægt er að láta vita af sér eða skilja eftir einhver ummerki á yfirborði, eins og yfirhafnir eða bakpoka. Þannig fá þeir sem koma að hellinum hugmynd um að einhverjir séu inni í hellinum. Þá verður seint tekið nógu oft fram að góð umgengni er afar mikilvæg. Sýnum náttúru landsins þá virðingu að skilja ekki eftir rusl í hellunum og ekki skemma þær myndanir sem verða á vegi manns. Komandi kynslóðir eiga eftir að njóta þess sama og við höfum tekið í arf eftir forfeður vora sem skoðuðu hellana. Þá er nauðsynlegt að brýna fyrir hellaskoðurum að nota ekki kyndla eða kerti við hellaskoðun því bæði er það ótryggt ljós og af hlýst mikill sóðaskapur.
Nú þegar þú ert búinn að kynna þér nokkrar ráðleggingar um hellaskoðun þá hefðir þú ef til vill áhuga á að lesa um 7 hella sem henta nýliðum. Góða ferð.

