Ferð í Tvíbotna og Litla-Björn 17.nóv

Arnar, Guðni og Halldór lögðu af stað í Goðahraun með tilgang. Að færa grjót í suðurenda Tvíbotna til að komast áfram inn í það rými sem sást á milli steinanna. Bílnum var lagt á gamla Gjábakkaveginum og 500m frá veginum er gríðarstórt gat 4x6m í þvermál og uþb 4m djúpt. Vírstígi var hengdur á kúbein sem hafði verið rekið á bólakaf í hraunið og einn af öðrum stigum við niður í djúpið.
Fyrst skoðuðum við hellinn upp í hraunið, þar sem hann er 250m langur og allur frekar stór um sig. Lofthæðin fer á stundum upp í allt að 10 metra. Eftir að hafa labbað norðurendann fram og tilbaka voru hellafararnir bjartsýnir á að eitthvað frekara hlyti að vera í suðurendanum en núþegar var þekkt. Suðurendinn er uþb 150m langur og endar í miklu hruni. David og fleiri höfðu verið við mokstur á þessum stað og skilið eftir lítið gat þar sem sáust göng í gegnum og hægri beygja. Lofthæðin uþb 3m og allt eins líklegt að þarna séu löng heilleg göng. Gatið var ekki meira en 15-20cm á hæð og 40cm á breidd og björg í allar áttir. Guðni er þekktur fyrir gríðarlega bjartsýni í þessum efnum og var ekki búinn að vera lengi að þegar neðri steinarnir voru komnir úr stað og gatið orðið eitthvað stærra. Eftir 3-4klst rugg á steinum með höndum, járnkarli og kúbeini varð gatið loksins nógu stórt svo Arnar gat smeigt sér inn með erfiðsmunum. Áður en reynt var að stækka gatið frá innanverðu var ákveðið að hann mundi labba lengra til að sjá hvort þetta væri þess virði en fljótt á litið var þetta ALLS ekki þess virði. Göngin eftir beygjuna enduðu strax. Herbergið var ekki meira en 8-9m langt og eina leiðin áfram var niður hraunbrekku, þar tók við ca 15m langt herbergi, mikið hrunið og lágt til lofts og endaði það í öðru hruni þar sem ekki varð lengra komist. Tvíbotni endaði því sannarlega þarna. Þá lá leiðin upp á yfirborðið.

Litli-Björn var skoðaður áður en haldið var heim á leið. Fremst í hellinum er mikið um zebra munstur og er hann heillegur á löngum köflum. Endar í miklu hruni þar sem hægt er að komast yfir í Vörðuhelli, við ákváðum að gera það ekki núna, enda orðið kalt og dimmt úti og útivistartíminn liðinn.

Eftir afar, verð ég að segja, undarlegar tónlistarumræður í bílferðinni heim voru lemstraðir hellafararnir komnir aftur í bæinn um kl. 20:00, tíu klukkustundum eftir brottför.

Uppfært 13.12.12: David lætur ekki segjast og fór aftur í Tvíbotna helgina 8-9 des og náði að grafa sig lengra inn í suðurenda Tvíbotna með félaga sínum Þóri og lengja þar hellinn um 40m. Sjá frekari lýsingar í commenti við þennan póst.

– Kennir okkur eina ferðina enn að gefast aldrei upp og koma ferskur að hverri hindrun.

Speleon!

4 thoughts on “Ferð í Tvíbotna og Litla-Björn 17.nóv

 1. Það var farið aftur í Tvíbotna um siðasta helgi og vorum við Þórir Már Jónsson á ferð í þessu skipti. Okkur langaði að skoða nánar verkið sem Guðni og félagar hefði unnið og tryggja að það væri örugglega ekki hægt að moka sér eitthvað áfram þar sem Arnar sneri við.

  Mikla breytingu hefði verið á pínulitla gatið í suðurendanum, eins og Arnar lýsir ofar, þannig að nokkuð auðveldt þó óþægilegt var að mjaka sig þarna ígegn. Smá vinna var lögð í að stækka gatið og tókst það ágætlega. Við fundum bráðum staðnum þar sem Arnar ákvað að snúa við. Ljóst var að þar þurfti að vinna gott verk til að komast áfram, en vinstra megin hrunsins leit nokkuð lofandi út. Eftir tæpan klukkustund var komið gat þar sem hægt var að troða sig ígegn, en opnaðist þar stutt(10m) en falleg göng með gullítað hraun á gólfinu. Hægra megin mættist loft og gólf ekki alveg og sást þar í göng sem leit aðeins stærra út. Ákveðið var þess vegna að reyna að moka líka hínum megin hrunsins. Að færa stórgrjót í metra háum göngum er, eins og við vitum öll, þung vinna, en þetta þókst á endanum og náðum við þar inn í nýtt herbergi, sem endaði þó líka bráðum í hruni. Eftir smá mokstur þurftum við að gefast upp, enda leit ekki mjög lofandi út að komast áfram og vorum við orðnir tæpir á tíma. Gustur er samt innst í hellinum, og þar liggur mjög láv 8-10m göng áfram undir hruninu. Hún lækkar þar til ekki er hægt að komast áfram, en endar þó ekki. Úr innsta herbergið liggur svo líka heil en stutt göng til baka undir aðalrásin, og kvíslast hún skemmtilega. Höldum við að u.þ.b 40m hafa bæst við heildarlengd hellisins.

  Þó að allra innsti parturinn er nokkuð skemmtilegur, þá er annað sem gerir það ómissandi að troða sig inn þar sem við Arnar og Þórir einir hafa komið hingað til. Þar eru hraunmyndir sem Þórir fant þegar hann tók óvart vítlausa beygju á leiðinni til baka að sækja myndavélina mína. Þær eru meðal flottara hraunmyndir sem ég hef séð. Þær breyta þennan part af hellinum, þannig að ég verð að segja mér ósammála Arnar um hvort þess virði væri að skoða hann.

  Með Kveðju
  David

 2. …hægt er að sjá myndir við að smella á nafninu mínu efst í fyrra svarinu mínu =)

 3. Þetta er ótrúlegt. Ég hef greinilega verið full fljótur að skima þarna í kringum mig, sá allavega engar leiðir áfram, hvorki beint né til að grafa. Var líka eitthvað hálf stressaður þarna eftir að hafa troðið mér einn í gegnum fyrsta gatið og hálf villst á leiðinni tilbaka 🙂
  En þetta er greinilega ávísun á að önnur ferð bíði manns í Tvíbotna og skoða.

 4. Skemmtileg lesning þessi pistill. Maður þyrfti greinilega að kíkja á þetta við tækifæri og muna eftir vírstiganum…

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.